Starfsemi Alþjóðlegrar frímúrarareglu karla og kvenna hefur verið í lágmarki síðan fyrsta Covid bylgjan reis í mars á þessu ári. Margar stúkur hér á landi hafa nýtt sér þann möguleika að koma saman á fjarfundum til þess að sjást og heyrast í stutta stund og reyna þannig að varðveita þann góða anda sem fundum frímúrara fylgir.
Í aðdraganda Jóla hefur sumstaðar erlendis verið aðeins slakað á fjöldatakmörkunum, oft undan þrýstingi frá trúarfélögum sem geta ekki hugsað sér um að sleppa hátíðarhöldum. Það á m.a. við um Frakkland þar sem messuhald hefur verið leyft og hámarksfjöldi bundinn við 30 manns. Allar frímúrarareglur þar í landi hafa stillt sig saman frá upphafi faraldursins og hafa nú tilkynnt að frá 1. desember verði leyft að halda fundi innan þessara marka. Þó munu ekki verið boðið uppá þá samveru í kjölfar funda sem fylgir gjarnan fundunum. Íslandssambandið hefur viljað fara varlegar og ekki er von til þess að breyting verði á fyrr en betri tök nást á útbreiðslu veirunnar og/eða bólusetningar hefjist upp úr áramótum.