Þann 30. desember 2022, afhenti Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, LE DROIT HUMAIN, árlegan velgjörðarstyrk sinn. Að þessu sinni var ákveðið að hann færi til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, nánar tiltekið til Björgunarsveitar Hafnarfjarðar sem hefur umsjón með sporhundum sveitarinnar en þeir hafa skapað henni mikla sérstöðu. Sporhundaþjálfari Björgunarsveitar Hafnarfjarðar er Þórir Sigurhansson sem bæði þjálfar hundana og sinnir útköllum þar sem þeirra er þörf. Mikil vinna liggur þar að baki en auk sporhundaþjálfara koma að hverri æfingu 2-3 aðrir félagar sveitarinnar.
Reynslan hefur sýnt að hreinræktaðir blóðhundar hafa besta lyktarskyn allra hunda og á sveitin nú tvær tíkur af þessu kyni. Sporhundur er þjálfaður til að leita að einum einstaklingi og þeir komast á sporið með því að lykta af klæðnaði eða öðrum persónulegum munum þess týnda.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi, stofnuð 1999 þegar Slysavarnarfélag Íslands og Landsbjörg voru sameinuð. Við sameininguna urðu til ein stærstu samtök sjálfboðaliða á Íslandi sem hefur að markmiði að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Þetta er öflugur hópur sjálfboðaliða sem er til taks á nóttu sem degi allt árið um kring.