Alþjóða Samfrímúrarareglan LE DROIT HUMAIN

Fréttir

Sam-frímúrarareglan á Íslandi 90 ára árið 2011

Árið 2011 var Samfrímúrarareglan á Íslandi 90 ára.

Um þessar mundir eru liðin 90 ár frá því að fyrsti reglulegi fundurinn var haldinn í Samfrímúrarareglunni á Íslandi, nánar tiltekið 12. mars 1921. Aðdragandinn að stofnun reglunnar var ekki langur. Svo virðist sem hugmyndin að stofnun samfrímúrarastúku á Íslandi hafi kviknað með komu norskar systur, Evu Blytt, til Guðspekifélagsins árið 1915. Hún starfaði í frímúrarastúkunni Yggdrasli í Noregi sem var fyrsta stúkan sem stofnuð var á Norðurlöndum (1913). Jón Árnasonar prentari, sem var félagi í Guðpekifélaginu, fór svo til Noregs árið eftir, kynntist reglunni og gekk í hana (1916). Aðrir stofnendur reglunnar gengu inn í Samfrímúrararegluna í Danmörku. Þeir voru Engilbert Hafberg kaupmaður, Henrietta Christine Kjær hjúkrunarkona, Astrid Bettine Kaaber húsmóðir, Marta Kalman húsmóðir og Ólafía Þórðardóttir Hansen. Fljótlega bættist Jakob Kristinsson fræðslumálastjóri í hópinn. Þá voru systkinin orðin sjö og hægt að stofna formlega stúku í Reykjavík. Nú eru stúkurnar orðnar 10 talsins, 7 í Reykjavík, 2 á Akureyri og 1 á Egilsstöðum.

Í upphafi heyrði starf reglunnar undir skandinavíska sambandið en þegar stúkunum fjölgaði og þær voru orðnar fimm, árið 1985, var stofnað sérstakt samband á Íslandi sem hefur bein samskipti við aðalstöðvar reglunnar í París. Með stofnun sambandsins var ákveðin einangrun reglusystkina rofin og þau urðu meðvitaðri um að þau tilheyrðu alþjóðlegri hreyfingu karla og kvenna sem gæti útbreitt bræðralagshugsjónina meðal allra þjóða. Samfrímúrarareglan starfar nú í 63 þjóðlöndum. Hún er öflugust í Frakklandi en miðað við fólksfjölda stendur hún styrkum fótum á Íslandi, reyndar styrkustum fótum þegar litið er til hinna Norðurlandanna og þó víðar væri leitað. Æðsti yfirmaður reglunnar í heiminum um tíma kom úr röðum íslenskra systkina. Þetta var Njörður P. Njarðvík prófessor sem gegndi því embætti um 10 ára skeið (1997-2007). Í árdaga frímúrarastarfs hér á landi héldu systkinin því rækilega leyndu að þau væru frímúarar og það stóð vexti Samfrímúrarareglunnar fyrir þrifum en Njörður vann ötullega að því að gera regluna sýnilegri með það að leiðarljósi að enginn gæti gerst þarfur þjónn hennar og málsvari nema vita að hún væri til. Hann var einnig einn af upphafsmönnum og velgjörðamönnum SPES barnahjálpar sem fyrst um sinn tengdist Samfrímúrarareglunni og er systkinunum enn hjartfólgin.

Uppruna Samfrímúrarareglunnar má rekja til þess að franskir frímúrarar í stúku sem hét „Hinir frjálsu hugsuðir“ vígðu árið 1882 inn í reglu sína konu sem hét María Deraismes, rithöfund og blaðamann, af því að þeir töldu ekkert standa i vegi fyrir því að kona yrði frímúrari annað en vanann. María Deraismes stofnaði síðan, ásamt Georges Martin, sem var stjórnmálamaður en sneri sér að andlegum málum, árið 1893 þá reglu sem nú heitir Samfrímúrarareglan Le Droit Humain (mannréttindi). Nafn stúkunnar sem reið á vaðið með að brjóta þá hefð, að einungis frjálsir karlar gætu orðið frímúrarar, er lýsandi fyrir þá breytingu sem brátt leit dagsins ljós. María var sjálf kvenréttindakona og stofnun Le Droit Humain markaði tímamót í baráttunni fyrir réttindum kvenna og mannréttindum almennt. Á stefnuskrá hinnar nýju reglu var að allir menn skyldu njóta félagslegs réttlætis óháð kyni, litarhætti, trú og þjóðerni í frjálsu samfélagi byggðu á bræðralagi.

Upp úr 1900 breiddist út í Evrópu vitundin um að konum bæri sami réttur og körlum og það veitti hugmyndum um hina nýju frímúrarareglu byr undir báða vængi. Markmiðið var öðru fremur að skapa vettvang þar sem konur og karlar ynnu hlið við hlið að mannrækt. Fyrsta stúkan í Belgíu var stofnuð 1912 og í Noregi 1913 sem reyndar var fyrsta stúkan á Norðurlöndum. Á næstu árum breiddist reglan út til hinna Norðurlandanna. Þegar Jón Árnason fór til Noregs 1916 gekk hann í  Samfrímúrararegluna þar, aðeins þremur árum eftir að stúkan Yggdrasill var stofnuð, sem leiddi svo, eins og áður sagði, til stofnunar stúkunnar Ýmis, fyrstu samfrímúrarastúkunnar á Íslandi.

Eins og flestir vita þá var félagsleg og réttarfarsleg staða kvenna bágborin fyrr á tíð. Segja mætti að líf kvenna væri á tíðum í skugga karla, eiginmanna þeirra eða annarra sem jafnvel véluðu um örlög þeirra. Í frásögur var fært í fornsögum okkar ef konur vildu ráða mannsefni sínu, slíkt var oftast aðeins leyfilegt ekkjum sem þegar höfðu fengið nokkur forráð á búi sínu. Slík eru enn örlög margra stúlkna um víða veröld. Það var ekki fyrr en 1882 sem ekkjur og ógiftar konur sem stóðu fyrir búi og konur sem voru sjálf sín ráðandi fengu kosningarétt til sveitastjórnar, þ.e. ári áður en fyrsta konan var vígð frímúrari í París, og kjörgengi 1902.  Staða íslenskra kvenna um 1921 hafði því vænkast nokkuð frá því sem áður var. Íslendingar virðast hafa fylgst vel með framvindunni hjá öðrum þjóðum og er vert að minnast þess að litlu munaði að konur fengju hér kosningarétt 1911, fyrstar á Norðurlöndum,  en þá voru stjórnvöld hér reiðubúin að veita þeim hann en ákvörðunin strandaði á stjórnarskrárákvæði sem þurfti staðfestingar við frá Kaupmannahöfn. Þær fengu hann því ekki að fullu fyrr en 1920. Þetta er dregið fram í dagsljósið hér til að undirstrika þá bjartsýni sem nú hafði vaknað um jafnan rétt karla og kvenna og benda á að stofnun samfrímúrarareglu á Íslandi var kannski rökrétt afleiðing ástandsins í þjóðfélaginu.

Oft liggja dýpri tengsl en einber áhugi að baki ýmsum skrefum sem til heilla horfa í þjóðfélaginu. Þær konur sem hér voru brautryðjendur fyrir auknum réttindum kvenna virðast hafa þekkst vel, jafnvel tengst innbyrðis, ef marka má heimildir þessa tíma, enda Reykjavík ekki stór (um 20.000 manns), þótt ekki sé unnt að rekja það hér. Bent skal líka á að Astrid Kaaber, einn af stofnendum Samfrímúrarareglunnar var eiginkona Ludvigs Kaaber sem sjálfur var einn af stofnendum Frímúrarareglunnar á Íslandi (1919). Fyrir tilstuðlan hans fékk reglan húsaskjól hjá Guðspekifélaginu fyrstu árin og naut velvilja hans í fleiru.  Nándin í okkar íslenska samfélagi getur reynst vel sé rétt á málum haldið. Brautryðjendur samfrímúrarareglunnar hafa án efa verið bundnir sterkum vináttuböndum er þeir sameinuðust í verkefni sínu.

Menn velta fyrir sér hvert megi rekja upphaf frímúrarareglna almennt séð. Sumir telja það eiga rætur í iðnsamfélögum miðalda þar sem steinhöggvarar og múrarar varðveittu ákveðna verkkunnátta og þekkingu í byggingu mikilfenglegra mannvirkja, s.s. kirkna og stórhýsa sem enn í dag eru meðal mestu listaverka veraldar. Þeir hafi stofnað félagsskap, svokölluð gildi, þar sem þeir miðluðu fróðleik og leyndardómum byggingarlistarinnar. Ákveðnar táknrænar siðaathafnir hafi jafnvel verið hafðar um hönd, hugsanlega í því skyni. Þær hafi smám saman þróast út í það sem við nefnum frímúrarafræði eða frímúrarastarf þar sem táknmálið sjálft varð aðalatriði. Þarna fæðist væntanlega hugtakið frímúrari. Aðrir vísa til launhelga fyrri tíða, ekki síst launhelga Egyptalands og Grikklands, þar sem einstaklingar vígðust inn í ákveðinn helgidóm í fleiri en einum skilningi. Þeir dvöldust þar og tóku framförum í leyndum fræðum sem fleyttu þeim áfram til dýpri skilnings á tilverunni og sjálfum sér. Þeir sem hafa ferðast til Egyptlands hafa væntanlega séð vistarverur í fornum musterisrústum sem taldar eru tengdar slíkri iðkun.  Hvora skoðunina sem menn aðhyllast á uppruna frímúrarareglna gildir einu. Eftir stendur að reglurnar leggja meðlimum sínum í té ákveðna aðferð sem byggir á táknfræði til aukinnar þekkingar á hinstu rökum tilverunnar og sínum innsta kjarna sem vonandi gerir viðkomandi kleift að vaxa sem maður, ekki síst öðrum til heilla. Þótt markmiðið sé að rækta eigin garð þá á blómgróðurinn að gleðja náungann ekki síður en ræktandann. Enginn er eyland, öll erum við hluti af keðju mannkynsins, hver hlekkur skiptir máli því að keðja er ekki sterkari en veikasti hlekkur hennar. Það er í raun lítill vandi að vera góður og sýna göfugmennsku í hópi þeirra sem hafa slíka framkomu að yfirlýstu markmiði. Það er hins vegar afrakstur námsins, þ.e. framganga frímúrarans í ytra lífi, sem færir okkur heim sanninn um það hvort honum hafi tekist ætlunarverk sitt.

Margir velta fyrir sér muninum á reglu annars vegar og félagi hins vegar og hvort allir geti orðið frímúrarar. Sannleikurinn er sá að leiðir til andlegs þroska eru margar og ekki hentar öllum það sama. Í fljótu bragði mætti segja að munur á félagi og reglu sé sá að regla er félagsskapur sem hagar störfum sínum eftir föstu reglubundnu kerfi þar sem táknrænar siðaathafnir kunna að vera hafðar um hönd á fundum. Meðlimir reglu þurfa oftar en ekki að vinna sérstök heit og geta, undir ákveðnum kringumstæðum, gengið í gegnum eins konar framþróun innan vébanda hennar. Í félagi búa menn við meira frelsi, eru almennt ekki skuldbundir til að mæta á fundi frekar en þeir kjósa svo eitthvað sé nefnt.

Samfrímúrarareglan er sjálfstæð stofnun, ef svo má að orði komast, þ.e. hún hefur ekki bein tengsl við önnur félög en mannfélagið sjálft. Reglan krefst reglulegrar þátttöku af félagsmönnum sínum og skilyrðislausrar þagmælsku. Félagaskrár eru ekki opinber gögn en mönnum er í sjálfsvald sett að skýra frá eigin aðild. Yfirlýst stefnumark samfrímúrarareglunnar er mannrækt og segja má að hver sá sem af „alvöru, einlægni og lítillæti vill leita sannleikans af opnum huga, viðurkennir takmarkanir mannlegrar þekkingar og skynjunar, og lætur samúð og góðgirni ráða afstöðu sinni til annarra manna“ (Björn Magnússon 1955 í grein um Jón Árnson og  reglustarfsemina) eigi erindi í félagsskap á borð við frímúrarareglu. Þeim sem vilja vita meira um inntökuskilyrði samfrímúrarareglunnar er bent á heimasíðu hennar www.samfrim.is þar sem nálgast má ýmsar upplýsingar.

Leyndin sem er viðhöfð um það sem fram fer á fundum veldur stundum misskilningi. Hugsanlega kallar hún þó á hann. Leyndin hefur tvíþættan tilgang, þ.e. að verja þær siðaathafnir sem iðkaðar eru fyrir rangtúlkunum og aðkasti þeirra sem ekki bera skynbragð á hvað að baki þeim býr en einnig sér leyndin um að þeir sem ganga inn í regluna upplifa vígslu sína algerlega á eigin forsendum þegar hún á sér stað; þeir geta ekki undirbúið sig fyrir hana. Gætu þeir það yrðu áhrifin ekki söm.

Spyrja má hvort  frímúrarareglur eigi erindi við nútímamenn, hvort þær séu ekki tímaskekkja í vísindasamfélaginu þar sem áherslan er oft á hraðan lífsmáta og kapphlaup um það sem nefnt hefur verið lífsgæði. Á sama hátt og maðurinn byggir sér líkamlegt skjól þá þarfnast hann einnig andlegs skjóls, eins konar vés, þar sem hann byggir upp sinn innri mann, styrkir sjálfan sig og minnir sig á hver hin raunverulegu lífsgildi eru. Í andlegu starfi frímúrarans á hann að beina sjónum að sjálfum sér,  rækta sjálfan sig, með þeim sérstöku aðferðum og táknmáli sem reglan lætur honum í té. Enginn slípar annan heldur einbeitir sér að eigin gerð með það að augnamiði að verða betri þjóðfélagsþegn. Með því að byrja á endurbótum sjálfs sín má vænta þess að árangurinn seitli smám saman út í þjóðfélagið og um heiminn.

Kristín Jónsdóttir

Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, LE DROIT HUMAIN notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á ledroithumain.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur