Alþjóða Samfrímúrarareglan LE DROIT HUMAIN

Spurt og svarað

Algengar spurningar

Þótt tilvist frímúrarasamtaka sé almennt kunn, þá eru færri sem vita að til eru í heiminum ýmsar ólíkar frímúrarareglur, sem starfa eftir mismunandi lögum og mismunandi siðakerfum og hafa ekki sömu afstöðu til trúmála og jafnréttis.

Allar frímúrarareglur eiga sér sameiginlegan uppruna. 24. júní 1717 komu fjórar frímúrarastúkur saman í London og stofnuðu með sér United Grand Lodge of England. Það felur jafnframt í sér, að frímúrarastarfið er miklu eldra. Um þann tíma er hins vegar fátt eitt vitað, af því að þá voru frímúrarareglur raunverulegar leynireglur og létu ekkert uppi um tilvist sína. 1723 voru gefin út stjórnskipunarlög (The Constitutions of the Free-Masons) kennd við James Anderson, en helsti meðhöfundur hans var Jean-Théophile Désaguliers, og voru þeir báðir mótmælendaprestar. Í þessum lögum er lögð áhersla á bræðralagshugsjón og virðingu fyrir öllum trúarbrögðum - og þar með leið fyrir menn af ólíkum uppruna og með ólík viðhorf til að finna sameiginlegan grundvöll til að skapa frið og samlyndi í heiminum. Menn urðu að hafa einhvers konar guðshugmynd, vera frjálsir og óháðir og fjár síns ráðandi, og því gátu hvorki þrælar né konur orðið frímúrarar. Sumar frímúrarareglur hafa enn í dag ekki breytt þessari afstöðu til kvenna.

Á 18. og 19. öld breiddist þessi starfsemi til ýmissa landa, og þá fór að bera á mismunandi skilningi og afstöðu, ekki síst í Frakklandi, þar sem hætt var að krefjast guðshugmyndar og svokallaðir guðleysingjar einnig taldir gjaldgengir, ef þeir uppfylltu önnur skilyrði.

Stutt kynningarmyndband á ensku

Vegna þeirrar leyndar sem hvílir yfir starfi frímúrara hafa orðið til alls konar ranghugmyndir og fordómar um störf þeirra. Þar sem frímúrarareglur eru ekki leynireglur heldur reglur með ákveðna leyndardóma, er æskilegt að veita réttar upplýsingar um markmið og starfsemi þeirra.

Algengust er trúlega sú ranghugmynd að frímúrararegla sé ekkert annað en hagsmunatengdur  karlaklúbbur þar sem áhrifamenn á ýmsum sviðum tengist bræðraböndum til að hjálpa hver öðrum til þess að skara eld að eigin köku og komast áfram í þjóðfélaginu. Ekkert er fjær lagi og finnist einhver dæmi um slíka misnotkun, þá er um að ræða ótvíræða misnotkun á reglunni sjálfri og hugsjónum hennar. Jafnframt eru frímúrarareglur víða um heim opnar bæði körlum og konum eins og reglan okkar Le Droit Humain. Eins starfa reglur sem einungis eru opnar konum eins og til dæmis Grande Loge Feminine de France,  The Honourable Fraternity of Ancient Freemasons og The Order of Women Freemasons.



Tilgangur frímúrarastarfsins er mannrækt. Frímúrarareglur leggja fram ákveðna aðferð til að kynnast sjálfum sér, til að kynnast innri veruleika sínum til aukins andlegs þroska. Menn stefna að því að bæta sjálfan sig til þess að geta tekið þátt í að bæta heiminn.

Með viðleitni til aukins þroska vaknar skilningur á óeigingjarnri þjónustu, svo að unnt sé þannig að stuðla að auknum mannskilningi, gagnkvæmri virðingu, jafnrétti og réttlætiskennd. Þannig er stefnt að réttlátara samfélagi manna og bjartari framtíðarvonum.

Starfsaðferðin er fólgin í siðrænum athöfnum sem byggjast á táknfræði. Sett eru á svið ákveðnar aðstæður sem eiga að vekja skilning á ákveðnum þáttum í innra og ytra lífi manna. Grundvöllur táknfræðinnar er byggingarlist miðalda, er menn reistu stórfenglegar dómkirkjur með fábrotnum áhöldum en miklu hyggjuviti. En í táknfræði frímúrara er mannkyni reist andlegt musteri þar sem þátttakendur í starfinu eru hvort tveggja í senn byggjendur og byggingarefni. Hver og einn leggur fram sinn stein til þessa musteris, og þann stein verður að höggva til, fegra og fága svo að hann geti orðið hæft og traust byggingarefni. Vísa má í 1. Pétursbréf 2:5: "… látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús…"

Þetta er tilgangurinn og táknfræðin og ekkert leyndarmál.

Hvers vegna þessi leynd, ef tilgangurinn og táknfræðin er ekki leyndarmál? Fyrir leyndinni eru fyrst og fremst þrjár ástæður, sem allar eru góðar og gildar:

1 ) Þegar menn ganga í frímúrarareglur taka þeir vígslu og svo er einnig þegar menn taka ný stig (eða áfanga) í reglunni. Í þessum vígslum í Alþjóðlegu frímúrarareglu karla og kvenna, Le Droit Humain felast hvorki líkamsmeiðingar né auðmýking, en mönnum er gert kleift að horfast í augu við sjálfan sig á sérstakan hátt. Og slík athöfn hefur ekki sömu áhrif ef menn vita fyrir fram hvað í henni felst.

2 ) Hin sérstaka siðræna aðferð frímúrara má ekki komast í hendur manna er misnota hana í annarlegum tilgangi, sem hefur því miður gerst.

3 ) Leyndin veitir einnig vernd. Fyrr á öldum var aðeins til ein "rétt" skoðun, ein "rétt" trú á Vesturlöndum, allt annað var dæmt sem villutrú, og fól í sér dauðadóm. Og alls staðar þar sem ríkt hefur trúarlegt eða stjórnmálalegt ofstæki hafa frímúrarar verið ofsóttir. Leyndin er því vernd fyrir kröfuna um andlegt frelsi, fyrir réttinn til eigin skoðana, eigin ábyrgðar, eigin þroska.

Allir fundir hefjast á sérstakri siðrænni upphafs- eða opnunarathöfn. Að henni lokinni tekur við vígsla eða erindi og umræður er snerta hugsjónir og störf frímúrara og hvernig það tvennt mótar viðhorf og breytni frímúrarans. Öllum fundum lýkur svo með sérstakri siðrænni lokaathöfn.

Hinar siðrænu og táknrænu athafnir geta menn skilið á mismunandi vegu. Menn geta skilið þær siðfræðilegum skilningi er hvetur til bættrar breytni, menn geta einnig lagt í þær dýpri andlega merkingu er beinir mönnum til leitar að innsta kjarna tilveru sinnar. Annar skilningurinn útilokar engan veginn hinn, og á það er lögð áhersla að hver og einn eigi rétt á sínum skilningi. Kreddur og innræting á sífellt að forðast í öllum störfum frímúrara.

Ekki er unnt að lýsa fundarstörfum nánar fyrir utanreglufólki.

Engum er boðin aðild, eftir henni verður fólk að sækja. Hafir þú áhuga en þekkir engann starfandi bróður eða systur, þá getur þú annað af tvennu sent okkur fyrirspurn hér í gegnum síðuna og við svörum þér um hæl, eða haft símasamband við einhvern stjórnenda Reglunnar. Símanúmer Reglunnar er að finna neðst á síðunni.

Starfsemi Reglunnar er fjármögnuð með árgjöldum systkinanna og samsvarandi greiðslum þegar flust er milli stiga innan hennar. Árgjöld Reglunnar eru nú kr. 36.500 og vígslugjöld kr. 18.250.

Fundir í Bláum Stúkum þ.e. á fyrstu þremur stigum reglunnar eru haldnir hálfsmánaðarlega.  Sjá nánar um þetta undir liðnum "Fundaáætlun". Fundir hefjast að jafnaði stundvíslega kl. 19:00 og mælst er til þess að systkin séu komin á fundarstað a.m.k. hálftíma fyrir upphaf fundar.

Starfsár Alþjóðlegu frímúrarareglu karla og kvenna, LE DROIT HUMAIN skiptist í tvö tímabil. Hið fyrra hefst í september og lýkur í desember. Hið síðara hefst í janúar og lýkur í maí. Fundir á öðrum stigum eru haldnir reglulega yfir starfsárið. Sérstakir og sameiginlegir fundir eru haldnir á vetrar- og sumarsólstöðum. Gert er hlé á formlegu starfi yfir sumarmánuðina og um jól og páska.

Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, LE DROIT HUMAIN notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun notenda vefsins svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á ledroithumain.is
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur