Í dag afhenti Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna, Le Droit Humain árlega velgjörðastyrki sína í aðdraganda jóla. Að þessu sinni hlutu tvö samtök styrkina, Hugarfar og Parkinsonsamtökin.
Hugarfar, félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda þess og áhugafólks um málefnið, var stofnað árið 2006. Flestir meðlimir félagsins þjást af ákomnum heilaskaða sem þeir hafa fengið í kjölfar ýmiskonar slysa og áfalla.
Parkinsonsamtökin voru stofnuð árið 1983. Megintilgangur félagsins er að miðla upplýsingum um sjúkdóminn, vera vettvangur um sameiginleg vandamál félagsmanna og aðstoða sjúklinga og aðstandendur við að leysa úr þeim vanda og erfiðleikum sem sjúkdómnum fylgja.
Fyrir hönd Hugarfars veitti Stefán John Stefánsson verkefnisstjóri styrknum viðtöku og fyrir Parkinsonsamtökin veitti styrknum móttöku Vilborg Jónsdóttir, formaður samtakanna. Kristján Jóhannesson Oddviti Alþjóðlegu frímúarareglu karla og kvenna á Íslandi afhenti styrkina.